Skömmu fyrir innrásina hinn 24, febrúar höfðu Rússar safnað um 300 þúsund manna herliði við landamærin að Úkraínu. Strax á fyrstu dögum og vikum innrásarinnar rústuðu þeir bæjum og borgum í nágrenni höfuðborgarinnar Kænugarðs sem þeim tókst ekki að hertaka.

Eftir að Rússar hrökkluðust á brott frá norðurhluta Úkraínu blöstu við hryllilegir stríðsglæpir. Almennir borgarar höfðu í hundraða og jafnvel þúsunda tali verið pyntaðir, skotnir á færi á götum út, á heimilum sínum og jafnvel hafði verið ekið yfir fólk á skriðdrekum í bænum Bucha.

Margir leiðtogar Vesturlanda eins og Ursula von der Leyen heimsóttu bæinn og mynd sem tekin var af Zelenskyy eftir að hann skoðaði hryllingin var lýsandi fyrir þá djúpu sorg sem allur umheimurinn upplifði eftir að fjöldamorðin urðu opinber.

Rússar hafa alla tíð þrætt fyrir glæpi sína, segja fréttir af þeim falsaðar og setja sjálfa sig yfirleitt í stöðu fórnarlambsins. Dagurinn í dag er þar engin undantekning.

Maria Zakharova talskona rússneska utanríkisráðuneytisins segir Úkraínumenn bera ábyrgð á því að 22 milljónir tonna af korni komist ekki sjóleiðina frá hafnarborgum í suðri og beri því ábyrgð á skorti og hungursneyð víða um heim.
„Allir vita að það eru tundurdufl sem úkraínski herinn kom fyrir sem hindra kornútflutning, ekkert annað. Það er þetta sem hindrar útflutning á korni," sagði Zakharova á fréttamannafundi í dag.
Hryllingurinn í Mariupol
Þá er hryllingurinn í Mariupol kafli út af fyrir sig. Tugir þúsunda féllu í löngu umsátri og stöðugum stórskotaliðs-, eldflauga- og loftárásum Rússa og hundruð þúsunda barna og fullorðinna hafa verið neydd yfir landamærin til Rússlands. Í gær sagði Volodymyr Zelenskyy forseti Úkraínu að um 240 börn hefðu fallið í stríðinu og um 200 þúsund börn verið flutt til Rússlands.

Vesturlönd og þá Bandaríkin sérstaklega hafa veitt Úkraínu gífurlega efnahags- og hernaðaraðstoð og gripið til víðtækra refsiaðgerða gegn Rússlandi, bönkum landsins, fyrirtækjum og einstaklingum sem aukið hafa verðbólgu, atvinnuleysi og vöruskort í Rússlandi. Þótt Putin og talsmenn hans segi aðgerðirnar ekki bíta er Rússum þó í mun að losna undan þeim og reyna að múta Vesturlöndum til þess. Þá eru meintar djúpsprengur Úkraínumanna í Svartahafi ekki lengur vandamál.
„Ef Bandaríkin og Evrópusambandið vilja raunverulega koma í veg fyrir þá hungursneyð í heiminum sem þeim verður svo tíðrætt um ættu þau að aflétta þessum refsiaðgerðum. Þá geta allir sem þurfandi eru fengið þetta korn," sagði Zakharova.
Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins hefur sagt þennan málflutning Rússa tilraun til kúgunar. Þá hefur Liz Truss utanríkisráðherra Bretlands marg lýst yfir að ekki komi til greina að aflétta refsiaðgerðum gegn Rússum fyrr en hver einasti hermaður þeirra hefur yfirgefið Úkraínu.

Gífurlegir bardagar hafa staðið yfir undanfarnar vikur í Donetsk og Luhansk héruðunum í austurhluta Úkraínu. Þar hafa Rússar náð Luhansk nánast algerlega á sitt vald en Úkraínumenn halda enn stórum hluta Donetsk.
Forseti Úkraínu segir Rússa vísvitandi skapa skort á korni í heiminum til að reyna að grafa undan samstöðu Vesturlanda. Framtíð frjálsrar Evrópu ráðast á vígvellinum í Úkraínu.
„Á þessari stundu er staðan þannig á vígvellinum í Úkraínu að hún getur valdið straumhvörfum í átökunum. Þegar Rússar tapa stríðinu gegn Úkraínu mun frelsi Evrópubúa sigra fyrir næstu áratugi," segir forseti Úkraínu.