Enn vantar mikið upp á að tekjur af sölu tónlistar nálgist það sem sást fyrir tilkomu ólöglegs niðurhals og streymisveitna sem hafa grafið stórlega undan plötusölu. Í því samhengi voru sölutekjur innlendra tónlistarétthafa á seinasta ári aðeins fjórðungur af þeim tekjum sem þeir fengu árið 2006 að raunvirði.
Þetta kemur fram í nýrri markaðsskýrslu Félags hljómplötuframleiðenda (FHF) fyrir árið 2021. Með innlendum tónlistarrétthöfum er bæði átt við útgáfufyrirtæki á borð við Öldu Music og minni útgáfufélög einstakra tónlistarmanna sem gefa sína tónlist út sjálfir.
Í tölunum sést greinilega hvernig tónlistarstreymisveitur, með Spotify í fararbroddi, hafa gjörbreytt íslenskum tónlistarmarkaði. Eftir nær stöðugan samdrátt í plötusölu hefur streymi nær alveg tekið yfir og stendur nú undir um 90% af þeim tekjum sem skapast á Íslandi vegna einkaneyslu á hljóðritaðri tónlist. Spotify var með 97% af heildarstreymi á Íslandi á síðasta ári, samkvæmt greiningu FHF.
Í skýrslunni er heildartónlistarsala 2021 metin á um 1,12 milljarða króna. Að nafnvirði er það mesta sala hljóðritaðrar tónlistar á Íslandi en að raunvirði, þegar tekið er mið af verðlagsþróun, er árið 2021 það söluhæsta frá árinu 2007.

Velta Spotify á Íslandi hefur margfaldast frá því að þjónutan varð aðgengileg Íslendingum árið 2013. Samkvæmt greiningu FHF færðist jafnvægið milli innlendrar og erlendrar tónlistar í fyrstu nær því sem sást fyrir tíma internetsins en undanfarin ár hefur langstærstur hluti tekjuaukningar tónlistarrétthafa í gegnum Spotify farið til erlendra útgefenda.
Hlutdeild íslenskrar tónlistar hrunið úr 84 í 20 prósent
Hlutdeild íslenskrar útgáfu í tónlistarsölu jókst mjög mikið á fyrstu árum þessarar aldar að sögn FHF og náði hámarki árið 2012 þegar hún var 84% af heildarsölu. Síðan þá hefur hlutfallið snúist við og var hlutdeild íslenskrar tónlistar í fyrra aðeins 20% af heildarsölu. Hlutfallið var enn lægra ef einungis er horft til Spotify, eða 18%.

Smávægilegur vöxtur varð í seldum áskriftum að tónlistarveitum hérlendis milli 2020 og 2021. Tekjuaukningin var þó mun meiri, eða um 10%, sem skýrist meðal annars af því að Spotify hækkaði verð á áskriftum snemma á seinasta ári.
Sömuleiðis hefur það áhrif á tekjur tónlistarrétthafa þegar fleiri færa sig í tveggja manna eða fjölskylduáskriftir hjá Spotify sem kosta minna en samsvarandi stakar áskriftir.

Tuttugu prósenta aukning í íslenskum vínyl
Sala á íslenskum geisladiskum og vínyl stóð í stað milli áranna 2020 og 2021 samkvæmt mati FHF. Tæplega 20% aukning varð á sölu innlendra vínylplatna en sala á geisladiskum dróst saman um 23%.
Á seinustu árum hefur vinyllinn aftur tekið fram úr sölu á geisladiskum var söluandvirði innlendra vínylplatna um 28,4 milljónir króna á seinasta ári samanborið við 15,5 milljónir í tilfelli geisladiska. Hljómplötur íslenskra listamanna sem gefa út hjá erlendum útgáfufyrirtækjum eru ekki hluti af þessum tölum.
Sala á efnislegum eintökum á erlendum hljómplötum jókst um ríflega helming milli ára en veruleg aukning hefur verið í sölu erlendra vínylplatna á undanförnum árum. Sala á vínylplötum samanstendur af 85% verðmæta eintakasölu erlendrar tónlistar á Íslandi. Sala íslenskra hljómplatna er nú annað árið í röð minni en helmingur af heildarsölu CD og vínyls.
Mest seldu plötur ársins 2021 á geisladiskum og vínyl voru Mozart & Contemporaries í flutningi Víkings H. Ólafssonar, Syngur lög Jóns Múla með Katrínu Halldóru og Kveðja, Bríet eftir samnefnda tónlistarkonu. Samantekt FHF byggir bæði á gögnum frá aðildarfyrirtækjum og áætluðum tölum.