Fótbolti

Birta Georgsdóttir: Við gerðum þetta saman

Árni Jóhannsson skrifar
Birta Georgsdóttir (28) fagnar með liðsfélögum sínum en hún átti stórleik þegar Afturelding var lögð af velli.
Birta Georgsdóttir (28) fagnar með liðsfélögum sínum en hún átti stórleik þegar Afturelding var lögð af velli. Vísir/Diego

Það er á engan hallað þegar sagt er að Birta Georgsdóttir hafi verið maður leiksins í kvöld þegar Breiðablik lagði Aftureldingur 6-1 á Malbiksstöðinni að Varmá í kvöld. Birta skoraði eitt markanna og lagði upp þrjú fyrir liðsfélaga sína á leið liðsins að sigri í 7. umferð Bestu-deildar kvenna.

Birta var spurð að því hvort þessi sigur hafi ekki verið svarið sem liðið hafi þurft eftir tap í síðustu umferð.

„Jú algjörlega. Við töluðum um það fyrir leik að svara fyrir síðasta leik í kvöld og jafnvel bara síðustu leiki sem hafa ekki dottið með okkur í deildinni. Mér fannst við gera það.“

Birta var ánægð með braginn á liðinu og að sá bragur hafi skapað sigurinn í kvöld.

„Ég myndi segja að það hafi verið allt annar bragur á liðinu okkar í kvöld en hefur verið undanfarið. Við gerðum þetta saman og keyrðum á þær, það var kraftur í okkur. Við vorum kraftmiklar í kvöld og mér fannst bara að liðsheildin hafi skilað þessu fyrir okkur.“

Mögulega var krafturinn eitthvað sem hefur vantað hjá Blikum undanfarið en Birta var meira á því að það hafi vantað upp á markaskorunina.

„Mögulega hefur vantað kraftinn en aðallega bara að koma boltanum yfir línuna og vera nógu ákveðnar og grimmar inn í boxinu. Við höfum verið að skapa okkur fullt af færum en þetta hefur bara ekki dottið með okkur hingað til.“

Eins og áður hefur komið fram var frammistaða Birtu mjög góð í kvöld og var hún spurð hvort það væri ekki ánægjulegt að eiga svona leiki.

„Jú ég get ekki annað en verið ánægð með svona kvöld. Ég er frekar sátt.“

Hún var þá að lokum spurð út í hvað svona frammistaða gerir fyrir sjálfstraustið í liðinu og hvernig framhaldið líti út fyrir þeim.

„Þetta gerir mjög mikið fyrir sjálfstraustið hjá okkur. Við þurfum að byggja ofan á þetta og halda áfram í næstu leikjum. Auðvitað er eitthvað sem hægt er að bæta en þetta er jákvæður punktur sem hægt er að byggja ofan á, haldið áfram og ekki horft til baka úr þessu.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×