Skrifað var undir samninginn í blíðskaparveðri á Akureyri í dag. Í samningnum kemur fram að nýr meirihluti vilji stórauka lóðaframboð, bjóða nýja íbúa hjartanlega velkomna og taka næstu skref við að móta framtíðarsýn fyrir svæðisborgina Akureyri.
Flokkarnir þrír eru með sex fulltrúa meirihluta í ellefu fulltrúa bæjarstjórn bæjarins. Flokkarnir skipta með sér verkum á eftirfarandi hátt, auk þess sem að Ásthildur Sturludóttur, sem ráðin var bæjarstjóri árið 2018, verður það áfram.
- Forseti bæjarstjórnar – Sjálfstæðisflokkurinn
- Formaður bæjaráðs – L-listinn
- Fræðslu- og lýðheilsuráð – Sjálfstæðisflokkurinn
- Skipulagsráð – L-listinn
- Umhverfis- og mannvirkjaráð – L-listinn
- Velferðarráð – L-listinn
- Formennska í stjórn SSNE - Sjálfstæðisflokkur
- Formennska í stjórn Norðurorku – Miðflokkurinn
- Formennska í stjórn Hafnarsamlags Norðurlands - Miðflokkurinn
Í samningnum kemur fram að leggja eigi aukinn kraft í skipulagsvinnu.
„Í ljósi mikillar eftirspurnar verður settur kraftur í skipulagsvinnu með það að markmiði að fjölga lóðum til úthlutunar. Lóðaúthlutanir og skipulagsmál verða unnin í gagnsæju ferli.
Sérstaklega verður horft til uppbyggingar á tjaldsvæðisreitnum við Þórunnarstræti, á Oddeyrinni og farið verður í hugmyndasamkeppni um uppbyggingu á Akureyrarvelli. Þá verði uppbyggingu Móahverfis flýtt eins og kostur er og einnig verður horft til nýrra hverfa.“

Komið verði á laggirnar lýðheilsustyrk fyrir tekjulágt og eignaminna eldra fólk og áhersla lögð á að ljúka við fyrstu aðgerðaáætlun í málefnum eldra fólks og hefja undirbúning að næstu.
Uppbyggingu húsnæðis fyrir fatlað fólk verður flýtt eins og kostur er og unnið jafnt og þétt á biðlistum.
Þá er stefnt að því að bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla verði brúað með fjölbreyttum leiðum og dregið úr kostnaðarþátttöku foreldra og forráðamanna í leik- og grunnskólum.