Niceair er fyrsta millilandaflugfélagið sem hefur fasta viðveru allan ársins hring á Akureyrarflugvelli. Gamall draumur marga að verða að veruleika þegar flugvélin kom í fyrsta skipti til Akureyrar
„Það er eiginlega ólýsanlegt. Miklar tilfinningar sem bærðust í brjóstinu á mér þegar við flugum hérna yfir flugbrautina,“ sagði Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Niceair í samtali við fréttastofu á flughlaði Akureyrarflugvallar, skömmu eftir að Airbus-vél félagsins lenti á flugvellinum.
Eliza Reid forsetafrú fékk þann heiður að nefna flugvélina.
„SÚLUR!,“ kallaði Eliza með bros á vör, þegar hún svipti hulunni af nafnamerkingu vélarinnar í blíðviðrinu á Akureyri í dag.

Súlur heitir flugvélin, eftir bæjarfjalli Akureyrar sem gnæfir yfir bænum í suðvestri.
Í sumar flýgur Niceair til London, Kaupmannahafnar og Tenerife, Manchester bætist svo við í haust. Þorvaldur Lúðvík, telur margt breytast á Norður-og Austurlandi með tilkomu þotunnar.

„Þetta er auðvitað gríðarleg lyftistöng fyrir atvinnulífið. Öll skilyrði til atvinnuuppbyggingar þau gjörbreytast. Nú er þetta allt í einu raunhæft að vera með ýmis konar útflutning. Það er líka raunhæft að vera í alls kyns þróunarvinnu sem að þú þarft að sinna í útlöndum en þú getur auðveldar pendlað á milli.“
Þessi flugvél, hún er núna hingað komin. Hún fær litla hvíld?
„Það er bara af stað á fimmtudaginn til Kaupmannahafnar.“
Allt fullt í þá vél?
„Já, ég held að svo muni vera.“

Og mikil tilhlökkun væntanlega?
„Já, það er mikil tilhlökkun hjá öllum. Þetta er stór hópur sem hefur staðið á bak við félagið. Við erum ánægð með þessa breiðsíðu af stuðningi sem við höfum fengið.“