Forsaga málsins er sú að Slayer kom fram á Secret Solstice í Laugardal sumarið 2018. Rekstrarfélagið greiddi K2 Agency Limited, umboðsfyrirtæki hljómsveitarinnar, þó aldrei alla þóknunina sem samið hafði verið um.
Friðrik Ólafsson, skipuleggjandi hátíðarinnar, var dæmdur til að greiða umboðsfyrirtækinu eftirstöðvar skuldarinnar, meira en 133 þúsund dollara, jafnvirði meira en sautján milljóna króna árið 2020. Landsréttur staðfesti dóminn en Friðriki var synjað um leyfi til að áfrýja til Hæstaréttar.
Ekkert fékkst þó upp í kröfun eftir að upphaflegt rekstrarfélag hátíðarinnar fór í þrot. K2 Agency Limited stefndi þá þremur félögum sem tóku við rekstri Secret Solstice og Guðmundi Hreiðarssyni Viborg, skráðum eiganda þeirra og stjúpföður eins af eigendum upphaflega rekstrarfélags hátíðarinnar.
Forsenda þess máls voru ummæli Víkings Heiðars Arnórssonar, framkvæmdastjóra Live events, eins félagana, í fjölmiðlum árið 2019 um að gert yrði upp við þá tónlistarmenn sem fengu ekki greitt fyrir að koma fram á hátíðinni árið áður.
K2 taldi að verðmætum hafi verið ráðstafað frá gamal rekstrarfélaginu með ólögmætum og saknæmum hætti áður en félagið var tekið til gjaldþrotaskipta. Guðmundur og félögin þrjú hefðu hagnast á því. Vegna náinna eigna- og stjórnunartengsl yrði að samsama Guðmund og nýju félögin því gamla.
Héraðsdómur taldi Víking hafa skuldbundið félögin til að greiða skuldina við Slayer með ummælum sínum í fjölmiðlum. Voru Guðmundur og félögin þrjú dæmd til að greiða eftirstöðvarnar skuldirnar.
Ekki fullreynt að fá Friðrik til að greiða skuldina
Landsréttur komst að andstæðri niðurstöðu. Í ummælum Víkings í fjölmiðlum hafi falist almenn yfirlýsing og þau hafi ekki borið með sér ótvíræðan vilja til loforðsgjafar. Þau hafi auk þess verið í andstöðu við fyrri ummæli Guðmundar sem stjórnarmanns félagsins.
Því féllst Landsréttur ekki á að Víkingur hefði gefið skuldbindandi ábyrgðaryfirlýsingu um að Live Events myndir greiða fjárkröfu umboðsfyrirtækis Slayer.
Hvað skaðabótakröfur K2 varðaði benti Landsréttur á að fyrir lægi endanlegur dómur um að Friðrik Ólafsson skuli greiða fjárkörfuna. K2 hafi fengið löggeymslu í íbúð í eigu Friðriks til tryggingar kröfunni og krafist nauðungarsölu íbúðarinnar til fullnustu kröfunnar.
Því taldi rétturinn ekki fullreynt hvort að fjárkrafa umboðsfyrirtækisins fengist greidd úr hendi Friðriks. Ekki væri tímabært að krefja Guðmund og félögin þrjú um að efna greiðslurnar. Því var Guðmundur og félögin Live events, L events og Lifandi viðburðir sýknuð að kröfum K2 að svo stöddu.