Aðild ríkjanna að Nató þarfnast samþykki allra aðildarríkja bandalagsins en stjórnvöld í Tyrklandi segjast ekki munu segja já, þar sem Svíþjóð og Finnland hafi skotið skjólshúsi yfir meinta hryðjuverkamenn tengda Verkamannaflokki Kúrdistan (PKK) og fylgjendum Fethulla Gulen.
Tyrkir segja Gulen hafa staðið fyrir valdaránstilrauninni í landinu árið 2016.
Erdogan ræddi við Magdalenu Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar í síma og sagði henni að tyrknesk stjórnvöld ætluðust til þess að Svíar tækju afdráttarlaus skref til þess að mæta athugasemdum sínum.
Þá sagðist forsetinn einnig ætlast til þess að stjórnvöld í Svíþjóð afléttu vopnasölubanni sem þeir komu á í kjölfar þátttöku Tyrkja í átökunum í Sýrlandi árið 2019.
Andersson sagði eftir á að hún hefði kunnað að meta símtalið og að Svíar vonuðust til að geta styrkt tvíhliða samskipti sín við Tyrki. Sagðist hún hafa lagt áherslu á að sænsk stjórnvöld styddu ótvírætt baráttuna gegn hryðjuverkum og að skilgreina PKK sem hryðjuverkasamtök.
Erdogan átti annað símtal við Sauli Niinistö, forseta Finnlands, og sagði það ekki samrýmast anda Nató að taka ekki á hryðjuverkasamtökum sem ógnuðu bandalaginu. Niinistö sagði fyrir sitt leyti að leiðtogarnir hefðu átt hreinskipt samtal og myndu halda áfram að eiga viðræður.