Segja má að þetta séu sögulegar lokatölur því þetta eru fyrstu sveitarstjórnarkosningar í nýju sveitarfélagi. Íbúar Svalbarðshrepps og Langanesbyggðar samþykktu sameiningu sveitarfélaganna tveggja 26. mars síðastliðinn.
Fréttastofa sló á þráðinn til Sigurðar Þórs Guðmundssonar, oddvita H-listans, í tilefni af góðu gengi í kosningunum. Hann var að vonum afar ánægður með niðurstöðuna.
„Þetta eru ánægjuleg tíðindi fyrir okkur. Við áttum greinilega erindi.“
Sigurður sagði að það væri mikið forgangsverkefni að klára sameiningu sveitarfélaganna.
„Nú ríður á að vanda sig. Sameiningin þýðir að við erum að stórbæta fjárhag okkar en um leið erum við að takast á við mjög kostnaðarsöm verkefni í framtíðinni og það skiptir máli að halda vel uta um þetta og halda góðri stöðu.“
Fyrir utan sameiningu sveitarfélaga sagði Sigurður að framundan væri mikil uppbygging. Fjölga þyrfti bæði íbúðum og atvinnutækifærum.
Fylgst er með nýjustu tíðindum um allt land í kosningavaktinni á Vísi.