Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra, setti drög að frumvarpinu í Samráðsgátt stjórnvalda í vikunni. Fram kom á Mbl í morgun að Lilja hefði á dögunum setið fund með fulltrúum framleiðendanna HBO og Amazon sem Íslandsstofa skipulagði.
„Það vill þannig til að það eru mjög stórir erlendir aðilar sem hafa áhuga á því að koma hingað inn með verkefni sem eru upp á marga milljarða,“ segir Lilja í samtali við fréttastofu.
Hlutfall endurgreiðslu af framleiðslukostnaði sem til fellur hér á landi er samkvæmt gildandi lögum 25 prósent. Fram kom á vef Stjórnarráðsins í vikunni að víða í nágrannalöndum Íslands sé hlutfallið komið í 35 prósent. Það séu þau lönd sem Ísland eigi í mestri samkeppni við í að laða til sín stærri og lengri tíma kvikmynda- og sjónvarpsverkefni
Því sé mikið hagsmunamál fyrir íslenskan kvikmyndaiðnað að lögin verði endurskoðuð með tilliti til þeirrar samkeppni. Í frumvarpinu er lagt til að afmörkuð stærri verkefni, sem uppfylla ákveðin skilyrði sem fram koma í lögunum, eigi rétt á 35% endurgreiðslu af framleiðslukostnaði.
„Þannig að hér er verið að stækka hugverkaiðnaðinn og það eru gjaldeyristekjur sem koma úr þessu. Þetta er mjög jákvætt,“ segir Lilja. Hún var í skýjunum að loknum ríkisstjórnarfundi. Hún telur málið svo til óumdeilt.
„Ég myndi segja það. Það er verið að búa til störf í þessum skapandi greinum. Það hefur hingað til verið nokkuð jákvætt.“