„Það var gríðarlega mikilvægt. Við vissum að Skagamenn yrðu vel skipulagðir, spiluðu sterkan varnarleik og myndu beita skyndisóknum. Þeir fengu eitt gott færi eftir skyndisókn en eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn náðum við betri tökum á þessu, skoruðum gott mark og svo spiluðum við vel í seinni hálfleik,“ sagði Heimir við Vísi í leikslok.
„Við sköpuðum góð færi í seinni hálfleik og skoruðum góð mörk. Ég var ánægður með flotið á boltanum og við fórum í þau svæði sem við vildum fara í. Svo var jákvætt að fremstu mennirnir okkar skoruðu. Allt var eins og það átti að vera í kvöld.“
Valsmenn spiluðu mjög vel í seinni hálfleik og líklega sinn besta bolta á tímabilinu hingað til að mati Heimis.
„Ég held það, allavega hvað varðar sóknarleikinn er þetta það besta sem við höfum gert. En við þurfum að halda áfram. Einn leikur í einu,“ sagði Heimir.
Félagaskiptaglugganum verður lokað á miðnætti. Að sögn Heimis verða engar breytingar á leikmannahópi Vals og þá staðfesti hann að Sigurður Egill Lárusson yrði áfram hjá félaginu.