„Við seljum þessa snúða bara eina viku á ári og allur ágóði rennur til þeirra,“
segir Viðar Ottó markaðsstjóri Brauð & Co í samtali við blaðamann. Snúðarnir eru sérstaklega búnir til fyrir málefnið og eru fylltir með hindberjakremi og toppaðir með sýrópi og frostþurkuðum hindberjum. Þeir verða til sölu í öllum bakaríum B&Co. og einnig í vefverslun út vikuna.
„Það skiptir okkur hjá Brauð & Co. miklu að taka þátt í þessu fallega verkefni með Göngum Saman. Öll þekkjum við einhvern sem hefur greinst með brjóstakrabbamein, þannig að þetta er málefni sem snertir okkur öll. Okkur langar sérstaklega að hvetja fyrirtæki til að panta fyrir vinnustaðinn sinn og styrkja í leiðinni þetta málefni,“ segir hann og bætir við:
„Viðtökurnar hafa verið æðislegar frá fyrsta degi og þetta verður alltaf stærra sem er frábært.“
