Körfubolti

Átján stigum frá því að taka stigametið af leikmanni sem er í hinu liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aliyah Collier hefur verið Haukakonum afar erfið í þessu úrslitaeinvígi.
Aliyah Collier hefur verið Haukakonum afar erfið í þessu úrslitaeinvígi. Vísir/Vilhelm

Stiga- og frákastametið í lokaúrslitum kvenna í körfubolta er í stórhættu í oddaleiknum um sigur í Subway-deild kvenna.

Aliyah Collier hefur skilað ótrúlegum tölum í úrslitaeinvíginu á móti Haukum en 27 stig og 20 fráköst dugðu Njarðvík ekki til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn og því verður hreinn úrslitaleikur á Ásvöllum á sunnudaginn.

Collier hefur verið með tröllatvennu (yfir 20 stig og 20 fráköst) í þremur af fjórum leikjum og varð sú fyrsta til að ná 30-20 leik í lokaúrslitum kvenna.

Hún er alls með 117 stig og 73 fráköst í fyrstu fjórum leikjunum og tvö met eru því í stórhættu í lokaleik tímabilsins.

Collier vantar nú aðeins átján stig til að slá stigametið og sjö fráköst til að slá frákastametið í úrslitaeinvígi kvenna en hún hefur verið langt yfir þessum tölum í leikjunum til þessa.

Stigametið á einmitt leikmaður í hinu liðinu en það er Haiden Palmer. Haiden skoraði 134 stig þegar Snæfell varð Íslandsmeistari vorið 2016 eftir sigur á Haukum í oddaleik.

Collier er komin upp í þriðja sætið á listanum á eftir þeim Palmer og Aalyah Whiteside sem lék með Val vorið 2018.

Frákastametið er í eigu Tierny Jenkins sem tók 79 fráköst í aðeins fjórum leikjum með Haukum vorið 2012. Njarðvíkngurinn LeLe Hardy var með 77 fráköst í sama einvígi og þar var því um mikið frákastaeinvígi að ræða. Collier er þegar komin upp í þriðja sætið á listanum.

  • Flest stig skoruð í einu úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitil kvenna:
  • Haiden Denise Palmer, Snæfelli 2016 - 134 stig
  • Aalyah Whiteside, Val 2018 - 122 stig
  • Aliyah Collier, Njarðvík 2022 - 117 stig
  • Aaryn Ellenberg-Wiley, Snæfelli 2017 - 115 stig
  • Olga Færseth, Keflavík 1994 - 111 stig
  • Unnur Tara Jónsdóttir, KR 2010 - 110 stig
  • Helena Sverrisdóttir, Haukum 2016 - 107 stig
  • -
  • Flest fráköst tekin í einu úrslitaeinvígi um Íslandsmeistaratitil kvenna:
  • Tierny Jenkins, Haukar 2012 - 79 fráköst
  • LeLe Hardy, Njarðvík 2012 - 77 fráköst
  • Aliyah Collier, Njarðvík 2022 - 73 fráköst
  • Ariana Moorer, Keflavík 2017 - 69 fráköst
  • Julia Demirer, Hamri 2010 - 63 fráköst
  • Helena Sverrisdóttir, Haukum 2018 - 61 frákast
  • Helena Sverrisdóttir, Haukum 2016 - 60 fráköst



Fleiri fréttir

Sjá meira


×