Þetta kemur fram í tilkynningu á vef stjórnarráðsins en þar segir að ráðherra hafi bætt við 1.500 tonnum í pottinn. Hlutfall strandveiða af leyfilegum heildarafla þorsks nemi því 4,5 prósent og hafi ekki svo stórum hluta aflans áður verið úthlutað til strandveiða.
Þá segir að ákvörðun Svandísar um að auka leyfilegan heildarafla í strandveiðum sé til að festa þær enn betur í sessi en í dag fái margar fjölskyldur hluta sinna heimilistekna frá strandveiðum. Nú sé fjórtánda strandveiðisumarið að ganga í garð og grunnhugsunin að baki þeim sé að stunda megi veiðar með ströndinni á sjálfbæran og ábyrgan hátt en jafnframt opna á möguleika fyrir þau sem ekki hafi yfir aflamarki að ráða á að reyna fyrir sér í sjávarútvegi.
Haft er eftir Svandísi í tilkynningunni að hún hafi fengið fjölda erinda frá strandveiðimönnum þar sem hún hafi verið hvött til að taka til skoðunar hvernig bæta megi kerfið þannig að verðmætasköpun verði sem mest og jafnræði landsvæða sem mest.
„Þau tilmæli tek ég alvarlega og þessi ákvörðun er liður í þeirri vinnu. Mikilvægt er að strandveiðar verði áfram tryggðar í þágu byggða, sjálfbærni og fæðuöryggis,“ segir Svandís í tilkynningunni.
Sá afli sem er til ráðstöfunar fyrir strandveiðar hverju sinni miðast við ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar og ákvörðun ráðherra um leyfilegan heildarafla.