Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Bankasýslunnar sem merkt er sem „Athugasemd frá stjórn Bankasýslu ríkisins vegna nýafstaðins útboðs á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka.“
Er þar vísað í gagnrýni á framkvæmt útboðsins sem var svokallað lokað útboð, eingöngu ætlað hæfum fagfjárfestum.
Á meðal þess sem gagnrýnt hefur verið er hverjir fengu að kaupa en það var í höndum sjálfra söluráðgjafanna sem fengnir voru til verksins að meta hverjir skyldu teljast hæfir fjárfestar og þannig gjaldgengir til að taka þátt í útboðinu.
Formenn stjórnarflokkanna þriggja kynntu í dag áform um að leggja Bankasýsluna niður.
Í yfirlýsingu stjórnar Bankasýslunnar segir að upp hafi komið vafi um hvort kröfum um hæfi fjárfesta hafi verið fylgt eftir af þeim fjármálafyrirtækjum sem sáu um sölu á hlut ríkisins í áðurnefndu útboði.
Einnig séu til athugunar mögulegir hagsmunaárekstrar einstakra söluaðila við kaup starfsmanna eða tengdra aðila á hlutum í bankanum.
„Fjármálaeftirlitið skoðar meðal annars hæfi þeirra fagfjárfesta sem fengu að kaupa en það var hlutverk söluaðila að meta það enn ekki Bankasýslu ríkisins,“ segir í yfirlýsingu stjórnar Bankasýslunnar.
Mun hafa áhrif hafi söluaðilar ekki staðið undir trausti
Fimm innlendir söluráðgjafar voru meðal þeirra sem sáu um að selja fjórðungshlut ríkisins í Íslandsbanka í síðasta mánuði. Samtals var kostnaður við útboðið um 700 milljónir króna sem er um 1,4% af sölandvirði bankans.
Í yfirlýsingu stjórnar Bankasýslunnar segir að komi í ljós að söluaðilar hafi ekki staðið undir því trausti sem Bankasýslan gerði til þeirra mun það hafa áhrif á söluþóknanir til þeirra.
„Stjórn Bankasýslu ríkisins skoðar nú lagalega stöðu sína gagnvart söluaðilum og mun að óbreyttu ekki greiða umsamda söluþóknum í tilvikum þar sem ágallar voru við sölu á 22,5% hlut ríkisins til hæfra fagfjárfesta.“
Undir yfirlýsinguna skrifa stjórnarmenn Bankasýslunnar, Lárus L. Blöndal, stjórnarformaður, Margrét Kristmannsdóttir og Vilhjálmur Bjarnason.