Á fundinum baðst Sigurður Ingi afsökunar á orðum sem hann lét falla um Vigdísi þegar til stóð að taka mynd af þeim á Búnaðarþingi sem fram fór í seinustu viku. Samkvæmt heimildum fréttastofu sagðist Sigurður ekki hafa áhuga á að lyfta „þessari svörtu“ og vísaði þar til húðlitar Vigdísar.
Vigdís segir að hún og Sigurður hafi átt hreinskilið, heiðarlegt og opið samtal, og baðst hann afsökunar á þessum orðum sínum. Hún segir að afsökunarbeiðnin hafi verið einlæg og að hún hafi meðtekið hana.
Þá segir Vigdís að með þessum fundi sé málinu lokið af hennar hálfu.
Sigurður ræddi stuttlega um atvikið í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi og sagði hann þar að honum hafi ekki fundist myndatakan viðeigandi á þessum tíma. Mikill gleðskapur hafi verið þetta kvöld.
Í gær fór mynd úr umræddri myndatöku í dreifingu um internetið. Þar sjást þrír starfsmenn Bændasamtakanna halda á Vigdísi og stendur Sigurður rétt fyrir aftan þau.