Leikurinn við Hvít-Rússa er í undankeppni HM í fótbolta og með sigri í dag heldur íslenska liðið öllum möguleikum opnum í baráttunni við Holland og Tékkland um að komast í lokakeppnina.
Leikurinn markar einnig tímamót því að í dag eignast Hella og Kópavogur nýjar 100 landsleikja konur.
Með þessu afreki Dagnýjar og Glódísar hafa tólf íslenskar knattspyrnukonur náð því að spila 100 A-landsleiki.
Hundrað leikja klúbburinn
- (Fjöldi landsleikja fyrir leikinn í dag)
- Sara Björk Gunnarsdóttir 136
- Katrín Jónsdóttir 133
- Hallbera Guðný Gísladóttir 125
- Margrét Lára Viðarsdóttir 124
- Dóra María Lárusdóttir 114
- Hólmfríður Magnúsdóttir 113
- Fanndís Friðriksdóttir 109
- Þóra Björg Helgadóttir 108
- Rakel Hönnudóttir 103
- Edda Garðarsdóttir 103
- Glódís Perla Viggósdóttir 99
- Dagný Brynjarsdóttir 99
Sara Björk Gunnarsdóttir á leikjametið en fyrir leikinn við Hvít-Rússa hafði hún leikið 136 A-landsleiki.
Sara á einnig metið yfir það vera yngst til að ná 100 landsleikjum og heldur því þrátt fyrir að Glódís sé aðeins 26 ára og 9 mánaða í dag. Sara var 26 ára og 5 mánaða þegar hún lék sinn 100. landsleik í mars 2017.

Annar Rangæingurinn sem nær hundrað landsleikjum
Dagný, sem er þrítug, lék sinn fyrsta A-landsleik í febrúar árið 2010 í 2-0 tapi gegn Bandaríkjunum í Algarve-bikarnum í Portúgal. Hún hefur verið burðarás í íslenska liðinu um árabil og leikið stórt hlutverk á tveimur Evrópumótum, 2013 og 2017.
Hún er þriðja markahæst í sögu landsliðsins með 33 mörk og langmarkahæst af þeim sem enn eru í landsliðinu, ellefu mörkum fyrir ofan Söru. Eitt eftirminnilegasta mark Dagnýjar var sigurmarkið gegn Hollandi á EM 2013 sem tryggði Íslandi sinn besta árangur - sæti í 8-liða úrslitum mótsins.
Dagný hóf að spila fótbolta með Knattspyrnufélagi Rangæinga og er annar leikmaður félagsins til að ná 100 landsleikjum, á eftir Hólmfríði Magnúsdóttur sem er einmitt næstmarkahæsta landsliðskonan með 37 mörk.
Dagný hefur á sínum ferli meðal annars orðið Þýskalandsmeistari með Bayern München og Bandaríkjameistari með Portland Thorns, auk þess að vinna fjóra Íslandmeistaratitla með Val. Hún er í dag leikmaður West Ham.
Aðeins misst af einum mótsleik frá árinu 2013
Glódís kom inn í landsliðið 4. ágúst 2012, þá aðeins 17 ára og 1 mánaðar gömul. Hún hefur síðan stimplað sig inn sem besti varnarmaður í sögu landsliðsins og spilað með því á EM 2013 og 2017. Báðar verða þær Dagný svo í eldlínunni á EM í Englandi í sumar og með sigri í dag aukast líkurnar á að þær spili í fyrsta sinn á HM á næsta ári.
Glódís hefur í 99 landsleikjum skorað sex mörk. Hún hefur aðeins misst af níu landsleikjum á þeim tíu árum sem liðin eru síðan að hún hóf landsliðsferilinn.
Frá því að hún spilaði í lokakeppni EM árið 2013 hefur Glódís aðeins misst af einum leik í undan- eða lokakeppni stórmóts en það var gegn Kýpur í þeirri undankeppni sem nú stendur yfir, í október í fyrra. Glódís var þá á bekknum í afar auðveldum 5-0 sigri.
Glódís, sem er uppalin hjá HK, hefur meðal annars orðið bikarmeistari með Stjörnunni, Svíþjóðarmeistari og sænskur bikarmeistari með Rosengård, og er nú leikmaður Bayern München.