Sjírínovskí var stofnandi Frjálslynda lýðræðisflokksins í Rússlandi og einkenndist orðræða hans af mikilli þjóðernishyggju og andúð á Vesturlöndum.
Hann þótti jafnframt mjög hvatvís og þrasgjarn í sinni pólitík. Rötuðu ummæli hans oft í fjölmiðla, meðal annars um að rétt væri að varpa kjarnorkusprengju á Alaska og að stækka ætti heimsveldi Rússa á þann veg að „rússneskir hermenn gætu skolað skó sína í Indlandshafi“. Sömuleiðis lagði hann eitt sinn til að Ísland yrði gert að fanganýlendu.
Sjírínovskí bauð sig alls sex sinnum fram til forseta Rússlands á árunum 1991 til 2018. Hann vakti mikla athygli í kosningunum 1991 þegar hann hlaut óvænt þriðja sætið þar sem Boris Jeltsín vann sigur. Tveimur árum síðar varð flokkur hans næststærstur á þingi.
Fréttir bárust af andláti Sjírínovskí þegar í marsmánuði, en talsmaður rússneska þingsins dró síðar þær fréttir til baka.