Niðurstöður hugmyndasamkeppni um þverun Reykjanesbrautar ásamt byggð yfir og við Reykjanesbraut, auk tenginga við vistvæna ferðamáta í svæðiskjarna í Smára voru kynntar í Kópavogi í dag.
Bæjarstjórn Kópavogs átti frumkvæði að samkeppninni sem samþykkt var einróma á bæjarstórnarfundi 11. maí 2021. Samkeppnin var unnin í samvinnu Kópavogsbæjar og Arkitektafélags Íslands og var markmiðið með henni að styrkja svæðiskjarnann í Smára og efla tengsl á milli svæða innan kjarnans fyrir alla ferðamáta.

Að baki verðlaunatillögunni standa ASK arkitektar, Þorsteinn Helgason arkitekt FAÍ, Jakob Jakobsson arkitekt FAÍ og aðstoð veittu Anna Margrét Sigmundsdóttir og Páll Gunnlaugsson arkitektar FAÍ.
Fram kemur í umsögn dómnefndarinnar um verðlaunatillöguna að með henni sé lögð fram hugrökk leið til að skapa nýtt, mannvænt og spennandi miðbæjarumhverfi fyrir Kópavog. Inngrip í Reykjanesbraut séu mikil og muni gerbreyta öllu yfirbragði svæðisins.

„Í tillögunni er Reykjanesbraut lögð í stokk á nær öllu samkeppnissvæðinu og þannig myndast fjöldi nýrra tenginga fyrir alla samgöngumáta og bætt hljóðvist. Fífuhvammsvegur og Skógarlind færast upp á yfirborðið og verða hluti nýs gatnanets sem fléttar svæðin saman á áreynslulausan og sannfærandi hátt. Gert er ráð fyrir mikilli uppbyggingu meðfram stokki Reykjanesbrautar,“ segir í umsögninni.
