Rússar hafa tekið völd í borginni og handtóku borgarstjórann, við lítinn fögnuð íbúa Slavútítsj. Fjöldi fólks kom saman á aðaltorgi borgarinnar, óvopnað, til þess að mótmæla handtöku Júrí Fomitsjev og veru rússneskra hersveita í bænum.
Samkvæmt Guardian reyndu hermenn að leysa upp mótmælin með því að skjóta upp í loft úr byssum sínum og nota hvellsprengjur. Það hafi hins vegar haft allt annað en tilætluð áhrif, og orðið þess valdandi að mótmælin urðu fjölmennari.
Að endingu hafi borgarstjóranum verið sleppt úr haldi og herinn gert samkomulag við borgina um að fara þaðan, ef íbúar myndu afhenda borgarstjóranum vopn sín. Þó var undanþága gerð fyrir þá sem eiga veiðiriffla.
Fomitsjev ku hafa sagt mótmælendum að með þessu vildu Rússar tryggja að enginn frá úkraínska hernum væri í borginni. Málið er enn eitt dæmi þeirrar miklu mótspyrnu sem rússneski innrásarherinn hefur mætt frá því innrás Rússa í Úkraínu hófst fyrir rúmum mánuði síðan.