„Í sprengjubyrgjunum, þar sem við bíðum á næturna, er aðeins talað um eitt; að Chernihiv, borgin okkar, verði næsta Mariupol,“ segir hinn 38 ára gamli Ihar Kazmerchak við AP fréttaveituna. Rafmagn er hvergi fáanlegt og þá er enginn hiti á íbúðarhúsum. Kazmerchak segir að apótek borgarinnar tæmist hratt.
Kazmerchak byrjar alla daga á því að bíða í röð eftir vatni en yfirvöld hafa skammtað íbúum drykkjarvatni síðustu daga: „Matarbirgðirnar eru að klárast og árásirnar og sprengirnarnar hætta ekki,“ segir hann.
Rússar eyðilögðu aðalsamgöngubrú Chernihiv í sprengjuárásum á miðvikudaginn og í gær sprengdu Rússar brú fyrir fótgangandi við borgina. Þeir hafa þannig lokað fyrir allar útgönguleiðir íbúa og torvelt er að koma matarbirgðum, lyfjum og öðrum nauðsynjum til íbúa í borginni.
Flóttamenn frá Chernihiv sem komust til Póllands í vikunni sögðu að sprengjur Rússa hafi jafnað að minnsta kosti tvo skóla í miðborginni við jörðu. Þá hafi Rússar einnig sprengt upp íþróttaleikvang, söfn, leikskóla og fjölmörg íbúðarhús.