Innlent

Ís­lendingum beri skylda til að standa vörð um ó­byggðirnar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Steve Carver hjá Leeds-háskóla leiddi kortlagninguna.
Steve Carver hjá Leeds-háskóla leiddi kortlagninguna. Vísir/Egill

Jarðfræðingur telur að nákvæmasta kortlagning íslenskra óbyggða til þessa, sem kynnt var í dag, muni nýtast vel við friðlýsingar framtíðarinnar. Breskur stjórnandi kortlagningarinnar segir að Íslendingum beri skylda til þess að vernda svæðin.

Sérfræðingar Leeds háskóla önnuðust kortlagninguna í samvinnu við fern íslensk náttúruverndarsamtök og skýrsla þess efnis var kynnt í Þjóðminjasafninu í dag. Aldrei hefur svæðið verið kortlagt af svo vísindalegri nákvæmni.

Og hér fyrir ofan sést ein afurðin; kort af skilgreindum óbyggðum víðernum. Þetta eru til dæmis Tröllaskagi, Vatnajökull og Fjallabak. Svæðin eru alls sautján, fjórtán innan miðhálendisins og telja alls 28.470 ferkílómetra. En hvernig er hægt að nota þessa kortlagningu?

„Það er hægt að afmarka villtustu svæði hálendisins og það eru þá svæði sem gætu fallið undir friðlýsingarskilmála sem gætu fallið undir óbyggð víðerni,“ segir Snæbjörn Guðmundsson jarðfræðingur sem vann að kortlagningunni.

„Ef þau eru ekki kortlögð og reynt að greina hver villtustu svæðin eru, þessi óbyggðu víðerni, þá höfum við enga leið til þess að vernda þau.“

Snæbjörn Guðmundsson, jarðfræðingur.Vísir/Egill

Steve Carver, stjórnandi verkefnisins, bendir á að það að standa vörð um og viðhalda óbyggðum víðernum sé efst á lista markmiða Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilegan fjölbreytileika. Og 43 prósent villtustu óbyggða Evrópu sé á Íslandi.

„Ísland hefur hagsmuni af því að vernda þessi svæði vegna þess að þau eru mikilvæg fyrir ferðamannaiðnaðinn,“ segir Steve.

„Mér finnst þið bera ábyrgð gagnvart heimsbyggðinni að standa vörð um þessi svæði, fyrir náttúruna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×