Liðið féll úr leik fyrir Real Madrid í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu og steinlá fyrir Monaco, 3-0, um helgina. Liðsandinn ku vera í molum og samkvæmt RMC Sport hefur leikmannahópurinn skipst í tvær klíkur, skipaðar frönskumælandi leikmönnum og leikmönnum frá Suður-Ameríku.
Ástandið var sérstaklega slæmt eftir tapið fyrir Monaco sem er í 7. sæti frönsku úrvalsdeildarinnar, 21 stigi á eftir PSG.
Líklegt þykir að talsverðar breytingar verði á leikmannahópi og starfsliði PSG eftir tímabilið. Flest bendir til þess að Kylian Mbappé, markahæsti leikmaður liðsins í vetur, fari til Real Madrid á frjálsri sölu og þá er framtíð knattspyrnustjórans Mauricios Pochettino í óvissu. Sömu sögu er að segja af íþróttastjóranum Leonardo.
PSG á franska meistaratitilinn vísan en er dottið út úr Meistaradeildinni og frönsku bikarkeppninni.