Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar sem var með mál Sala undir höndunum. Þar kemur einnig fram að hann hafi látist af áverkum á höfði og brjóstkassa.
Sala mun hafa verið algjörlega meðvitundarlaus af völdum kolmónoxíðeitrunnar þegar flugvélin brotlenti. Bilað útblásturskerfi vélarinnar olli því að bæði Sala og flugmaður vélarinnar urðu fyrir áhrifum eitrunarinnar. Hann hafi þó að öllum líkindum enn verið á lífi þegar vélin skall í sjónum og það hafi verið höggið sem varð honum að bana.
Þá komst dómstóll í ráðhúsi Bournemouth á Englandi einnig að því að flugmaður vélarinnar hafði ekki tilskilin leyfi til að fljúga að nóttu til.
Sala var aðeins 28 ára þegar hann lést, en hann var á leið frá Nantes í Frakklandi til Wales að kvöldi til þann 21. janúar árið 2019. Vélin brotlenti hins vegar í Ermarsundi rétt hjá Guernsey með þeim afleiðingum að bæði Sala og flugmaður vélarinnar, hinn 59 ára David Ibbotson, létu lífið. Lík Ibbotson hefur aldrei fundist.