Ef marka má erlenda miðla virðast báðir aðilar hafa gefið nokku eftir í afstöðu sinni, sem hefur vakið vonir um að viðræðurnar í dag muni mögulega skila einhverjum árangri. Hingað til hafa ráðamenn í bæði Rússlandi og Úkraínu verið mjög harðorðir og einarðir í kröfum sínum.
Stjórnvöld í Moskvu virtust í gær hafa ákveðið að einblína á að tryggja hlutleysi Úkraínu og stöðu Donbas-héraðanna, sem Vladimir Pútín viðurkenndi sem sjálfstæð í aðdraganda innrásarinnar. Forsetinn virðist hafa fallið frá áformum um stjórnarskipti í Kænugarði.
Hugarfarsbreytingu forsetans má eflaust að einhverju leyti rekja til afdráttarlausra viðskiptaþvingana og annarra refsiaðgerða sem eru farnar að bitna verulega á rússneska hagkerfinu og þjóðinni en einnig þeirri staðreynd að Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, er nú álitin þjóðhetja um allan heim og á í reglulegu sambandi við leiðtoga annarra ríkja.
Selenskí hefur fyrir sitt leyti gefið til kynna að hann kunni að vera reiðubúinn til að falla frá umleitunum um inngöngu í Atlantshafsbandalagið og jafnvel til að komast að málamiðlun um Donbas-héruðin.
Hann sagði í gær að hann gerði ráð fyrir að Pútín myndi að lokum ákveða að hætta hernaðaraðgerðum sínum í Úkraínu og ganga til viðræðna, þar sem ekkert lát væri á harðri mótspyrnu Úkraínumanna.
Bandaríkjamenn segja 5 til 6 þúsund rússneska hermenn hafa fallið í innrásinni.
Sérfræðingar vara við að enn sé langt á milli aðilar, til að mynda sé ólíklegt að Selenskí sé reiðubúinn að gefa eftir Krímskaga sem hluta af Rússlandi og viðurkenna sjálfstæði Donetsk og Luhansk. Þá á Pútín mikið undir að koma vel út úr stríðsrekstrinum.