„Það er því ekkert til neitt sem heitir venjulegt fósturbarn eða fullkomið fósturbarn, eða neitt slíkt. Við förum alltaf í mjög skrítnar aðstæður í upphafi.“
Það eru ótal mörg horn að líta í þegar barn er tekið í fóstur og margt sem erfitt er að tímasetja eða skipuleggja fyrirfram. Í nýjasta þættinum af hlaðvarpinu Fósturfjölskyldur er meðal annars rætt um aðlögunartímann og þá staðreynd að ekki er fæðingarorlof fyrir fósturforeldra sem taka að sér barn í tímabundið fóstur. Foreldrar sem taka að sér barn í varanlegt fóstur geta fengið fæðingarorlof með börn átta ára og yngri.
Hefði gengið mun hægar
„Ég var svo sjúklega heppin að ég átti sumarfrí og frábæra yfirmenn,“ segir María Dröfn Egilsdóttir um það hvernig hún leysti þetta vandamál. María Dröfn gerðist fósturforeldri þegar hún fékk dreng til sín í fóstur fyrir nokkrum árum og situr hún nú í stjórn Félags fósturforeldra á Íslandi.
„Ég fór í frí með honum af því að leikskólinn hans var að fara í frí. Hann var ekki með daglega vistun. Ég var heppin með það, en það er ekki alltaf þannig.“
Þessi tími var mikilvægur fyrir aðlögunina og fyrstu vikurnar þeirra saman.
„Ég held að tengslin okkar hafi orðið mjög fljótt sterk út af þessu,“ útskýrir María Dröfn.
„Ég hugsa að ef ég hefði verið í vinnunni og svo sótt hann í leikskólann og við hefðum bara átt þessa þrjá tíma áður en hann fór að sofa þá hefði þetta gengið mjög hægar fyrir sig.“
Hægt er að hlusta á þáttinn í spilaranum hér fyrir neðan. Guðlaugur, Hildur Björk og María Dröfn ræða einnig um það sem barnið kemur með á nýja heimilið og hvað þarf að útvega og margt fleira. Samtal þáttarins varpar ljósi á aðstæður fósturbarna og fósturforeldra; málefni sem eiga það til að vera falin í okkar samfélagi.
Fósturfjölskyldur, Hlaðvarpsþættir Félags fósturforeldra, munu birtast næstu fimmtudaga hér á Vísi og á öllum helstu efnisveitum.
Félag fósturforeldra á sér langa sögu. Í lok síðustu aldar sameinuðust tvö félög undir nafni annars félagsins. Nafn hins félagsins var Félag vistheimila í sveitum og starfaði innan Bændasamtakanna. Félagsmenn Félags fósturforeldra eru í dag tæplega 300.
Hægt er að kynna sér félagið á vefsíðu þeirra fóstur.is og svo eru þau líka komin með Instagram síðu.