Topplið Dusty mætir til leiks í fyrri viðureign kvöldsins, en þeir mæta Fylki sem situr í næst neðsta sæti deildarinnar. Sigri Dusty í kvöld er liðið komið ansi nálægt því að tryggja sér sigur í Ljósleiðaradeildinni.
Sigur kemur Dusty í 32 stig og þá er liðið með átta stiga forskot á Þór og Vallea. Þór og Vallea geta mest fengið átta stig í viðbót og því í besta falli jafnað Dusty að stigum.
Síðari leikur kvöldsins er svo viðureign Kórdrengja og Vallea. Kórdrengir sitja á botni deildarinnar, en eins og áður segir heldur Vallea í veika von um að ná Dusty á toppi deildarinnar.
Ljósleiðaradeildin í CS:GO er í beinni útsendingu á Stöð 2 eSport, eða einfaldlega í spilaranum hér fyrir neðan.