Alþjóða knattspyrnusambandið samþykkti beiðni Úkraínu um að fresta leiknum vegna innrásar Rússa í landið.
Þetta þýðir um leið að úrslitaleikurinn um laust sæti við annað hvort Wales eða Austurríki fer ekki fram í mars. Það þykir líklegast að þessir leikir fari í staðinn fram í stóra landsleikjaglugganum í júní.
Heimsmeistarakeppni í Katar fer fram 21. nóvember til 18. desember á þessu ári. Það er því ekki allt of langur tími til stefnu ekki síst þar sem fótboltatímabilin í Evrópu hefjast fyrr vegna þess að þau þurfa að gera hlé á meðan HM fer fram.
Mark McGhee, fyrrum aðstoðarlandsliðsþjálfari Skota, er á því að FIFA sé að gera hið rétta í þessari erfiðu stöðu en hann ræddi þetta við breska ríkisútvarpið.
Scotland and Ukraine's World Cup play-off semi-final has been postponed.
— BBC Sport (@BBCSport) March 8, 2022
The nations were due to meet at Hampden on 24 March but Ukraine requested a postponement to Fifa following Russia's invasion of the country.#BBCFootball
„Ég held að þetta sé rétta ákvörðunin. Við verðum að virða það sem er í gangi þarna og áhrifin sem það hefur á þeirra leikmenn,“ sagði Mark McGhee, sem er nú stjóri Dundee.
„Úkraína hefur rétt á því að keppa á jafnréttisgrundvelli og ekki síst undir núverandi kringumstæðum. Það yrði alltof mikið að ætlast til þess að þeirra landsliðsmönnum að spila leik á þessu stigi á þessum tíma. Það yrði meira segja ósanngjarnt að kalla þá saman á þessum tímapunkti,“ sagði McGhee.
„Það er enginn að tapa neinu á þessu. Skosku stuðningsmennirnir vilja augljóslega fá að vita hvað er í gangi en þetta er það rétta í stöðunni og ég held að skoska knattspyrnusambandið muni ekki gera neina athugasemd,“ sagði McGhee.