Handbolti

„Þeim er alveg sama hvað þeir sprengja, þetta eru villi­­menn“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Roland Eradze ásamt dóttur sinni Mariam.
Roland Eradze ásamt dóttur sinni Mariam. Vísir/Svava

Roland Eradze, fyrrverandi landsliðsmarkvörður Íslands og núverandi þjálfari úkraínska meistaraliðsins HC Motor, kom til Íslands frá Úkraínu á föstudaginn eftir átta daga ferðalag frá borginni Zaporizhzhia. Hann ræddi við fréttastofu Stöðvar 2 og Vísis um átökin og ferðalagið.

„Þetta voru hættulegar aðstæður. Það var búið að loka fyrir flugumferð svo við fórum aftur til Kænugarðs. Það trúði því enginn að Rússar myndu varpa sprengjum á borgina en það gerðist samt,“ sagði Roland um ferðalagið en hann og lærisveinar hans höfðu spilað við Kielce í Póllandi þann 23. febrúar, degi áður en innrás Rússa hófst.

Vildi ekki valda fjölskyldunni áhyggjum

„Ég fæ símtal frá mömmu þar sem hún segir mér að heyra í pabba því það er stríð í Úkraínu. Ég held að ég hafi verið tiltölulega róleg miðað við að mamma og aðrir voru meira stressaðir. Ég held það hafi hjálpað að hann hafi verið vel rólegur og léttur á því en ég held það hafi bara verið fyrir okkur,“ sagði dóttir Rolands, landsliðskonan Mariam Eradze.

„Ég var ekkert að fara segja þeim að hér væri allt að fara til fjandans og allir myndu deyja. Ég sagði þeim að það væri allt í lagi og sprengingarnar væru langt í burtu frá okkur. Ég held það sé eðlilegt, trúi að flestir myndu tækla þetta svona,“ sagði Roland í kjölfarið.

„Þeir eru að sprengja allt, allt í kringum. Þeim er alveg sama hvað þeir sprengja í loft upp, þetta eru villimenn,“ sagði Roland Eradze að endingu. Nánar verður rætt við hann í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Klippa: Segir að Rússum sé alveg sama hvað þeir sprengi í loft upp



Fleiri fréttir

Sjá meira


×