Fyrirliðinn, hinn 30 ára gamli Marcel Römer, er kominn í ótímabundið leyfi eftir að hafa misst eiginkonu sína Cecilie.
Liðsfélagar hans, og Freyr, þurfa hins vegar að gera sig klára í fótboltaleik í dag því þeir mæta Fremad Amager á útivelli í dönsku 1. deildinni. Freyr segir að hugur allra sé þó hjá Römer og börnum þeirra Cecilie.
„Við höfum unnið mikið með samstöðu í okkar hópi frá upphafi og nú finnum við allir að eigum eitthvað einstakt saman, og þjöppum okkur enn þéttar saman sem lið og það sem er mikilvægast – sem manneskjur,“ sagði Freyr við heimasíðu Lyngby.
Ekki einbeitt okkur að fótbolta því aðrir hlutir eru mikilvægari
„Það getur enginn sett sig í spor Marcels núna og síðustu dagar hafa verið súrrealískir. Hugur okkar er að sjálfsögðu allur hjá Marcel, börnunum og fjölskyldunni, en við finnum styrk í því að finna hvað Marcel er okkur mikilvægur og hvað hópurinn, starfsliðið og félagið er Marcel mikilvægt,“ sagði Freyr.
„Við höfum ekki einbeitt okkur að fótbolta síðustu daga, við höfum ekki æft sérstaklega mikið, því það hafa aðrir hlutir verið mikilvægari. En við erum að sjálfsögðu tilbúnir í leikinn.
Auðvitað hefur aðdragandinn verið allt annar en við höfum upplifað áður, og við vitum líka að Fremad Amager hefur gengið í gegnum aðra hluti, svo leikurinn verður mjög sérstakur og við erum meðvitaðir um það,“ sagði Freyr sem er með Sævar Atla Magnússon að vanda í leikmannahópi sínum í dag en ekki markvörðinn Frederik Schram.