Svitolina dró sig úr keppni á mótinu og ætlar ekki að mæta spilurum frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi á WTA mótaröðinni vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Svitolina hvetur æðstu presta í tennisheiminum til að fara að fordæmi Alþjóða ólympíunefndarinnar að meina rússnesku og hvít-rússnesku íþróttafólki að keppa undir merkjum sinna þjóða.
„Staðan kallar á skýra afstöðu frá ATP, WTA og ITF. Við, úkraínskt tennisfólk, höfum farið þess á leit við samböndin að þau fylgi IOC og samþykki íþróttafólk frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi aðeins sem hlutlausa keppendur sem geta ekki tengt sig sinni þjóð,“ skrifaði Svitolina á Twitter í gær.
„Ég vil tilkynna að ég mun ekki spila í Monterrey á morgun né mæta neinum keppendum frá Rússalndi og Hvíta-Rússlandi þangað til samböndin okkar grípa til viðeigandi ráðstafana. Ég á ekkert sökótt við rússneskt íþróttafólk. Það er ekki ábyrgt fyrir innrásinni og ég þakka öllum rússnesku íþróttafólki sem sýndi hugrekki og tók afstöðu gegn stríðinu. Stuðningur þess er nauðsynlegur.“
#Ukraine # #StandWithUkriane pic.twitter.com/1LT4WjrYI9
— Elina Monfils (@ElinaSvitolina) February 28, 2022
Svitolina er fimmtánda á heimslistanum í tennis. Hún komst í undanúrslit Wimbledon og Opna bandaríska meistaramótsins 2019. Þá vann hún brons á Ólympíuleikunum í Tókýó síðasta sumar.