Aðgerðirnar munu gera þeim bönkum sem bannið nær til erfiðara fyrir að millifæra peninga til og frá landinu. Bannið gæti því einnig gert Rússum erfitt um vik þegar kemur að ýmsum inn- og útflutningi en Rússar reiða sig á SWIFT-greiðslukerfið við olíu- og gasútflutning.
Aðgerðin mun hafa veruleg hamlandi áhrif á alþjóðlega starfsemi bankanna en gæti sömuleiðis torveldað viðskipti vestrænna fyrirtækja sem eiga í viðskiptum í Rússlandi.
Einnig stendur til að beita Seðlabanka Rússlands refsiaðgerðum og fleiri rússneskum auðjöfrum. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, kynnti aðgerðirnar í kvöld.
Meðal þeirra refsiaðgerða gegn Rússlandi sem kynntar voru er að frysta eigur Seðlabanka Rússlands víða um heim. Í yfirlýsingu Ursulu von der Leyen, segir að seðlabankinn muni ekki geta stundað viðskipti eða selt eigur sínar sem hafa verið frystar. Munu aðgerðirnar koma til með að einangra hagkerfi Rússlands enn frekar frá umheiminum.
Að sögn von der Leyen mun frystingin koma í veg fyrir að Rússar noti fjármuni sem Seðlabankinn eigi í öðrum ríkjunum til að fjármagna stríðsreksturinn í Úkraínu.
Fylgjast má með nýjustu vendingum í vaktinni á Vísi.