Körfubolti

Ívar Ásgrímsson: Verið að brjóta samninginn

Árni Jóhannsson skrifar
Ívar Ásgrímsson, þjálfari Breiðabliks.
Ívar Ásgrímsson, þjálfari Breiðabliks. VÍSIR/DANÍEL

Það var erfiður dagur á skrifstofunni hjá Breiðablik í dag og var Ívar Ásgrímsson þjálfari liðsins ósáttur við ýmislegt í leik sinna kvenna. Leikurinn endaði 57-96 fyrir Hauka og var sigurinn aldrei í hættu í raun og veru.

Blikar skoruðu lítið í þriðja leikhluta og misstu Haukakonur langt frá sér og þegar gestirnir fengu sjálfstraust þá stungu þær af. Ívar var á því að sínar konur hefðu haft litla trú á verkefninu lengi vel í kvöld.

Aðalfréttin eftir leik er þó það af hverju Michaela Lynn Kelly var ekki í leikmannahóp Breiðabliks. Blaðamaður spurði hvort hún væri að glíma við alvarleg meiðsli en hún er víst ekkert meidd.

„Hún er ekkert meidd. Það er bara þannig að bandarískur umboðsmaður hennar bannaði henni að spila þennan leik í dag því hún er búin að semja við WNBA lið sem byrjar ekki fyrr en í apríl. Umboðsskrifstofan í Evrópu sem við gerum samning við í gegnum er ósátt við þetta líka og þetta eru brot á samning. Þetta er náttúrlega bagalegt því við getum ekki náð okkur í erlendan leikmann þar sem búið er að loka félagaskiptaglugganum og umboðsmaður hennar er líka að koma henni í slæma stöðu með þessu en hann er að stjórna henni.“

Þá var spurt að því hvort þetta mætti hreinlega og hvort að hún væri þá búin að spila sinn síðasta leik fyrir Breiðablik í vetur.

„Í samningnum hennar kemur fram að hann hafði til 26. janúar að gera samning við WNBA liðið en hann segir upp samningnum í gær. Þannig að það er ljóst að hann er að brjóta samning. Hann segir að hún spili ekki og hún gegnir honum. Við vitum í raun og veru ekkert hvað við getum gert, það er verið að brjóta samninginn og við verðum að skoða okkar mál. Eins og staðan er núna þá hefur hún lokið leik fyrir okkur í vetur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×