Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsneti. Frá því klukkan fjögur í gær hafa tuttugu línur farið út og sumar þeirra nokkrum sinnum. Sjö línur eru enn bilaðar eftir nóttina og viðgerðir að hefjast.
Truflunum fylgdi rafmagnsleysi á ákveðnum svæðum og önnur voru keyrð á varaafli. Tjón varð í Laxárvatnslínu þar sem stæður skemmdust og í Selfosslínu 1 er brotin þverslá. Verið er að fara yfir aðrar línur og það á eftir að koma í ljós hvort um meiri skemmdir er að ræða.
Um tíma í gær var rafmagnslaust á Vesturlandi og Vestfjörðum en Vestfirðir eru enn keyrðir á varaafli. Undir morgun var rafmagnslaust á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum. Varaalf var ræst og verið er að vinna í að koma rafmagni aftur á.
Tvær stórar línur sem liggja inn til höfuðborgarsvæðisins fóru út í gærkvöldi en því fylgdi ekki rafmagnsleysi. Önnur þeirra, Sultartangalína 3 er enn úti en ekki hin, Búrfellslína 3. Talið er líklegt að bilun sé á línunni þar sem hún liggur yfir hálendi og þarf sértækt tæki til að fara á staðinn en tafir verða á því þar sem veður er mjög slæmt á svæðinu.
Í tilkynningunni segir að spennuhögg hafi komið á kerfið og því hafi fylgt flökt á ljósum. Skerða hafi þurft flutning til stórnotenda í kjölfarið. Landhelgisgæslan hafi svo flogið í nótt til að skoða línuna en frá hafi þurft að hverfa vegna veðurs. Línan verður skoðuð aftur í dag ef færi gefst.
Fram undan eru viðgerðir á eim sjö línum sem enn eru bilaðar eftir nóttina. EKki er vitað hvað þær viðgerðir munu taka langan tíma en ljóst að tjón hleypur á tugum milljóna.