Mikið hvassviðri í Eyjum í nótt gerði það að verkum að mikill skafrenningur skapaðist.
Snjórinn hrúgaðist því upp í kring um hús og bíla og olli mörgum Eyjamönnum vandræðum.
Þannig var þetta til dæmis staðan þegar einn þeirra ætlaði að kíkja út um útidyrahurðina í morgun:

„Ég fór hérna upp á stól. Mokaði svona gat og skreið út þegar ég var búinn að ná svona fyrir bumbuna líka,“ segir Eyjamaðurinn Tryggvi Sigurðsson.
Hann fékk síðan vin sinn sem á gröfu til að aðstoða sig að ryðja heimreiðina en gröfur og snjóruðningstæki hafa verið að störfum í Eyjum síðan snemma í morgun.

Hafa gaman að veðrinu
Katrín Laufey Rúnarsdóttir, einn ritstjóri bæjarmiðilsins Tíguls, var mætt snemma út í morgun til að kanna stöðuna.
Hún segir að flestir hafi haft gaman að fannferginu, sérstaklega eigendur vel útbúinna jeppa.
„Eins og maður sá hérna á vegum að það höfðu verið virkilegar torfærur fyrir jeppana að fara og mjög gaman. Ég hitti einmitt einn sem var á ferð í alla nótt á risabíl. Og hann brosti breytt og þótti þetta mjög gaman,“ segir Katrín.

Flestir hafi þó verið illa búnir undir ástandið.
„En sem betur fer voru engin stórvægileg tjón eða neitt þess háttar. Bara fastir bílar út um allt, illa búnir bílar og svona af því að Vestmanneyingar þekkja þetta kannski ekki alveg. En sem betur fer fór allt vel,“ segir Katrín.
Sá það verra 1968 og 2008
Nei, Eyjamenn eru ekki vanir miklum snjó en Tryggvi hefur þó séð það verra en í morgun.
„Já, já, ég hef nú gert það og meira en þetta. Ég upplifði hérna mikla snjóinn 1968 sko og líka hérna 2008 eða eitthvað svoleiðis þá var allt á kafi hérna. En það hefur ekkert verið svona í um 15 ár,“ segir hann.