Innlent

Siða­nefnd HÍ segir af sér í tengslum við meintan rit­stuld seðla­banka­stjóra

Eiður Þór Árnason skrifar
Siðanefnd Háskóla Íslands samþykkti að segja af sér í síðustu viku. 
Siðanefnd Háskóla Íslands samþykkti að segja af sér í síðustu viku.  Vísir/Vilhelm

Siðanefnd Há­skóla Íslands hefur sagt af sér. Þetta staðfestir Skúli Skúlason, fyrrverandi formaður nefndarinnar, í samtali við Vísi en hann vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið.

Mbl.is greinir frá því að nefndin hafi samþykkt þetta 7. febrúar eftir að Jón Atli Bene­dikts­son rektor tjáði nefndarmönnum að stjórn skólans telji að siðanefndin hafi enga lögsögu í máli Berg­sveins Birg­is­son­ar, rit­höf­und­ar og fræðimanns, gegn Ásgeiri Jóns­syni seðlabanka­stjóra.

Greint var frá því í desember að siðanefndin ætlaði að taka fyrir meintan ritstuld Ásgeirs sem Bergsveinn hefur sakað hann um. Málið varðar bókina Eyjan hans Ingólfs, sem Ásgeir gaf út í lok síðasta árs. Bergsveinn telur ljóst að seðlabankastjóri hafi í veigamiklum atriðum stuðst við bók sína Leitina að svarta víkingnum. Ásgeir hefur vísað því á bug.

Rektor ósammála nefndarmönnum

Siðanefnd­in taldi að hún gæti tekið málið fyrir þar sem Ásgeir væri í virku ráðning­ar­sam­bandi við Háskóla Íslands, þrátt fyrir að hann hafi verið í lang­tíma launa­lausu leyfi þaðan frá því að hann tók við sem seðlabankastjóri. Fullyrt er í frétt mbl.is að nefndarmenn hafi ekki talið sér sætt lengur þegar rektor komst að önd­verðri niður­stöðu.

Auk Skúla áttu Henry Alexander Henrysson og Sólveig Anna Bóasdóttir sæti í siðanefndinni. Hvorugt þeirra vildu tjá sig um málavexti þegar eftir því var leitað. Formaður siðanefnd­arinnar er skipaður af há­skólaráði sam­kvæmt til­nefn­ingu rektors. Fé­lag há­skóla­kenn­ara og Fé­lag pró­fess­ora skipa hvort um sig einn nefnd­ar­mann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×