Körfubolti

LeBron gæti farið frá Lakers til að spila með syninum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
James-feðgarnir á góðri stundu.
James-feðgarnir á góðri stundu. getty/Christian Petersen

LeBron James dreymir um að spila með syni sínum og gæti yfirgefið Los Angeles Lakers til að láta þann draum verða að veruleika.

Elsti sonur LeBrons, Bronny, þykir gríðarlega efnilegur. Hann leikur með Sierra Canyon menntaskólanum og er eftirsóttur af stærstu háskólum Bandaríkjanna.

Bronny, sem er sautján ára, útskrifast úr menntaskóla á næsta ári og gæti spilað í NBA í fyrsta lagi 2024. Samningur LeBrons við Lakers rennur út eftir næsta tímabil og hann gæti farið frá félaginu til að geta spilað með syni sínum. Þetta segir Brian Windhorst, íþróttafréttamaður á ESPN sem hefur skrifað manna mest um LeBron.

„LeBron kann vel við sig í Los Angeles, ala börnin upp þar og þar eru viðskiptamöguleikarnir eftir að ferlinum lýkur,“ sagði Windhorst.

„En hann hefur gefið það skýrt til kynna að hann vill spila með syni sínum. Og ef hann þarf að fara frá Los Angeles til að það verði að veruleika gerir hann það.“

LeBron hefur leikið með Lakers síðan 2018. Hann varð NBA-meistari með liðinu 2020. Það var hann fjórði meistaratitill en hann varð tvisvar sinnum meistari með Miami Heat og einu sinni með Cleveland Cavaliers.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×