Körfubolti

Framlengingin: „Hljótum að geta sæst á það að það séu þrír útlendingar í hverju liði“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sérfræðingar Subway Körfuboltakvölds ræddu meðal annars um fjölda útlendinga í deildinni.
Sérfræðingar Subway Körfuboltakvölds ræddu meðal annars um fjölda útlendinga í deildinni. Stöð 2 Sport

Kjartan Atli Kjartansson og sérfærðingarnir í Subway Körfuboltakvöldi fóru um víðan völl í Framlengingunni í síðasta þætti. Þeir ræddu meðal annars um fjölda erlendra atvinnumanna í deildinni.

„Ég er búinn að vera í rauninni á öllum þessum skoðunum. Að það eigi að vera þrír plús tveir eða hvað,“ sagði Sævar Sævarsson þegar Kjartan bað hann um að velta þessu fyrir sér.

„Mér finnst að það hljóti að vera einhver millivegur sem hægt er að fara. Mér finnst þetta orðið of mikið í dag.“

„Fimm útlendingar í frábæru liðið Þórs Þorlákshafnar, fimm útlendingar mögulega í KR. Af öllum liðum á Íslandi, að það séu fjórir eða fimm útlendingar í sigursælasta félagi Íslands síðustu tíu ár, hvaða rugl er það?“ sagði Sævar.

Hann hélt svo áfram að telja upp fjölda útlendinga í hinum ýmsu liðum á Íslandi og var þá búinn að sannfæra sig um það að þetta væri of mikið.

„Mér finnt þetta of mikið. En ég skil samt alveg að sum lið þurfi útlendinga til að halda úti samkeppnishæfum félögum, en við hljótum að geta sæst á það að það séu þrír útlendingar í hverju liði og þá má allt eins gera þetta bara alveg frjálst og leyfa bara þrjá Kana.“

„Ég held að síðastliðin ár séu búin að sýna fram á það að Kanarnir eru ekkert að taka eitthvað meira til sín en Evópubúarnir.“

Hermann Hauksson var með strákunum í settinu og hann var sammála kollega sínum.

„Ég er bara svolítið mikið sammála Sævari. Mér finnst rosalega leiðinlegt að sjá fjóra til fimm útlendinga í nánast hverju einasta liði. Maður er að sjá að lið eru að byrja með fjóra útlendinga og einn Íslending og þá finnst mér þróunin bara ekki vera rétt,“ sagði Hermann.

„Við viljum byggja upp það kerfi að þegar þú ert að koma upp í meistaraflokk þá ertu jafnvel að fara að fá einhverjar mínútur og getur þá þroskast sem leikmaður. Frekar en að vera þessi gæi sem ert alltaf í kannski tíunda til tólfta sæti á bekknum og veit að þú ert kannski ekki með hlutverk.“

Kjartan Atli greip þá boltann á lofti og bætti við að félögin ættu það til að freistast til þess að kaupa leikmenn í stað þess að ala þá upp.

„Þetta snýst bara um það að við erum með yngri flokka starf hérna og fyrir mér þá eru meistaraflokkarnir auglýsingar fyrir yngri flokkana,“ sagði Kjartan.

„Meistaraflokkarnir eiga að hvetja ungmenni sem eru búsett á Íslandi til að fara og æfa með sínu hverfisfélagi. Það er alltaf þessi freistnivandi af því að það er svo auðvelt að fara bara og kaupa leikmann úti í heimi.“

Strákarnir ræddu þetta mál í dágóða stund í viðbót, en umræðuna, ásamt öðrum umræðupunktum Framlengingarinnar, má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: KbK: Framlengingin



Fleiri fréttir

Sjá meira


×