Þar með hafa þrjú tilkynnt að þau sækist eftir að leiða lista flokksins á Seltjarnarnesi í komandi sveitastjórnarkosningum í vor en auk Ragnhildar hafa Magnús Örn Guðmundsson og Þór Sigurgeirsson tilkynnt um framboð. Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri ætlar sér að hætta eftir kjörtímabilið.
Ragnhildur hefur verið varbæjarfulltrúi frá árinu 2018 og hefur sinnt formennsku í skipulags- og umferðarnefnd, setið í skólanefnd og svæðisskipulagsnefnd Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Áður sat hún í foreldraráði Leikskóla Seltjarnarness 2015-2017.
Að því er kemur fram í tilkynningu um málið leggur Ragnhildur áherslu á að álögur séu lágar á Nesinu og að þjónusta bæjarins sé framúrskarandi.
„Við þurfum að fara vel með skattfé og gæta að því að rekstur bæjarins sé sjálfbær og staða hans sé þannig að við ráðum við sveiflur vegna utanaðkomandi áfalla. Skólarnir á Seltjarnarnesi eiga að vera fyrsta flokks og bærinn á að nýta sér tæknina bæði til sparnaðar og bættrar þjónustu við íbúa“ segir Ragnhildur.
Þá eigi Seltjarnanesið að vera grænn og fjölskylduvænn bær og til þess þurfi íþrótta- og æskulýðsstarf að blómstra og félagsstarf eldri borgara að vera líflegt og skemmtilegt.
„Það skiptir líka máli að hlúa að umhverfinu og gæta þess að það sé bæði snyrtilegt og fallegt. Okkur á að líða vel í heilbrigðu umhverfi í bæ sem við erum stolt af. Ég boða aukið gagnsæi í ákvarðanatöku og að unnið sé að bættri lýðheilsu, líðan og lífsgæðum bæjarbúa á öllum aldri,“ segir hún enn fremur.
Auk starfa hennar sem varabæjarfulltrúi hefur Ragnhildur víðtæka og fjölbreytta reynslu úr atvinnulífinu, hefur unnið við rannsóknir og hagspár, efnahagsgreiningu og eignastýringu, kennslu, skrif og heilsueflingu og setið í stjórnum fyrirtækja og stofnana.
Hún er gift Tryggva Þorgeirssyni, lækni og forstjóra heilbrigðistæknifyrirtækisins Sidekick Health, og eiga þau saman þrjú börn á grunnskólaaldri.