Nokkur umræða var um það á Alþingi í gær að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var ekki viðstaddur fyrsta þingfund að loknu jólaleyfi þingmanna. Þar þurfti að afgreiða með hraði frumvarp hans um heimild til fyrirtækja í veitingarekstri til fresta greiðslum opinberra gjalda. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins mælti fyrir málinu í Bjarna stað en hann mun vera staddur í skíðaferðalagi í útlöndum.

„Það er nú bara nauðsynlegt fyrir alla að taka sér aðeins leyfi eftir þörfum. Það er nú bara þannig,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.
Er fjarvera hans á þessum fyrsta degi í þinginu þegar hann er sjálfur með frumvarp sem þarf að fá skjóta afgreisðlu ekki dálítið óheppileg?
„Mér sýndist það vera í góðum höndum hjá staðgengli. Við erum náttúrlega búin að fjalla um þetta og í margar vikur að undirbúa þetta.“
Veistu hvenær hann kemur aftur heim?
„Nei, mér er ekki kunnugt um það.“
Saknar þú hans?
„Það er allaf gott að hafa fjármálaráðherrann á staðnum,“ sagði Sigurður Ingi.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna segist hafa vitað af áætlunum Bjarna sem væri væntanlegur heim eftir tvo daga.
„Þingmenn eru stundum fjarverandi þótt þing sé að störfum. Það er kannski ekkert nýtt í því. Það var utanríkisráðherra sem mælti fyrir málinu í fjarveru fjármálaráðherra í gær. Málið lá nokkuð ljóst fyrir þannig að ég tel að þetta hafi ekki haft nein áhrif á framgang málsins eða vinnslu þess,“ segir Katrín,
Þannig að ríkisstjórnin er í fínu standi þótt að fjármálaráðherra sé fjarri góðu gamni þessa dagana?
„Eins og ég segi, þetta hefur þekkst.“
Ertu sjálf að íhuga að fara á skíði eða einhvers konar leyfi?
„Nei, ég er nú ekki að því. Ég ætla nú bara að vera hér,“ sagði Katrín Jakobsdóttir létt í bragði eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi.