Schalke 04 féll úr þýsku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð og þó fjárhagsstaða félagsins sé slæm þá var markið sett á að fara beint aftur upp í deild þeirra bestu. Það virðist ætla að reynast þrautin þyngri.
Lið Hólmberts Arons Friðjónssonar, Holstein Kiel, var í heimsókn í dag og eftir markalausan fyrri hálfleik voru það gestirnir sem komust yfir á 67. mínútu leiksins. Alexander Muhling með markið.
Simon Terodde jafnaði metin fyrir Schalke sjö mínútum síðar og þar við sat. Lokatölur 1-1 sem þýðir að Schalke er í 6. sæti með 31 stig að loknum 19 leikjum.
Aðeins tvö stig eru upp í Heidenheim sem situr í 3. sæti deildarinnar. Þriðja efsta sæti deildarinnar leikur við liðið sem endar í þriðja næsta sæti úrvalsdeildarinnar að tímabilinu loknu í umspilsleik um hvort liðið verður í efstu deild á næstu leiktíð.
Guðlaugur Victor lék 85 mínútur í leiknum en Hólmbert Aron var ekki í hóp hjá Kiel.