Diallo kom inn á sem varamaður á 77. mínútu þegar PSG vann Dijon eftir vítaspyrnukeppni í frönsku bikarkeppninni, 5-4.
Sem frægt er var Diallo handtekinn eftir að ráðist var Hamraoui fyrir utan heimili hennar 4. nóvember. Diallo, Hamraoui og annar samherji þeirra voru þá á heimleið eftir kvöldmat með liði PSG. Tveir grímuklæddir menn drógu Hamraoui út úr bílnum og börðu hana í fæturna með járnrörum.
Diallo, sem ók bílnum, var í kjölfarið handtekin, grunuð um að hafa skipulagt árásina. Henni var seinna sleppt án ákæru og enginn fótur virðist hafa verið fyrir handtökunni. Grunurinn beindist seinna að eiginkonu Erics Abidal, fyrrverandi leikmanns Barcelona og franska landsliðsins, sem á að hafa átt í leynilegu ástarsambandi með Hamraoui. Hayet Abidal er grunuð um að hafa látið skipuleggja árásina á Hamraoui í hefndarskyni.
Diallo, sem er 26 ára, hefur æft með PSG að undanförnu og sneri loks aftur á völlinn í gær. Hamraoui er hins vegar ekki enn byrjuð að spila eftir árásina.