Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að málin hafa löngum varpað skugga yfir íslenskt samfélag. Hún telur að aðeins lítill hluti þeirra fjalli um fjárhagslegar bætur.
„Það er mín einlæga von að þessum málum verði hægt að ljúka þannig að við getum kvatt þessi mál sem samfélag,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Aðspurð um hvað taki næst við segir Erla Bolladóttir að samkvæmt hefðbundnu verklagi kæmi hún til með að sækja um endurupptöku á málinu. Þá yrði endurupptökudómstóll að úrskurða í því máli. Erla telur að það myndi ganga vel, enda séu rök með endurupptöku.
„Ég er auðvitað ánægð með þessa dómsuppkvaðningu í fyrradag, mjög svo. Ég er auðvitað ánægð með að ráðherra sér ekki ástæðu til þess að áfrýja þessum dómi. Ég átti von á hverju sem var úr þeirri átt, þannig að ég er ánægð með það,“ segir Erla.
Ertu ekki orðin langþreytt á þessu máli?
Jú, ég er auðvitað orðin langþreytt. Þetta er búið að vera í rauninni mitt aðalstarf í ansi mörg ár. Ég þrái að lifa þann dag að ég þurfi ekki að standa í þessu máli.
Líður dagur án þess að þú hugsir um þetta mál?
„Ég efast um það, það kemur alltaf eitthvað,“ segir Erla Bolladóttir.