Þó Barcelona hafi ekki stillt upp sínu sterkasta liði í kvöld voru samt sem áður reynsluboltar á borð við Jordi Alba, Sergio Busquets og Daniel Alves, sem var að spila sinn fyrsta leik fyrir Börsunga í 2054 daga, ásamt nokkrum byrjunarliðsmönnum.
Börsungar áttu samt í stökustu vandræðum með spræka heimamenn, sem leika í C-deild, og kom Hugo Diaz þeim yfir á 19. mínútu. Reyndist það eina mark fyrri hálfleiks og staðan því 1-0 Linares Deportivo í vil er liðin gengu til búningsherbergja.
Xavi, þjálfari Barcelona, brást við með þrefaldri skiptingu í hálfleik. Frenkie de Jong, Gerard Pique og Ousmane Dembele komu allir inn af bekknum. Sá síðastnefndi jafnaði metin á 64. mínútu leiksins og sex mínútum síðar kom Ferran Jutgla gestunum 2-1 yfir.
the game winner pic.twitter.com/2vzH0OA3sG
— FC Barcelona (@FCBarcelona) January 5, 2022
Reyndist það sigurmark leiksins og Börsungar skríða þar með áfram í næstu umferð spænska konungsbikarsins.