Körfubolti

Smit í leikmannahópum Tindastóls, ÍR og Njarðvíkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tindastólsmenn hafa ekki spilað fyrr en fyrir jóla en leik þeirra milli jóla og nýárs var frestað.
Tindastólsmenn hafa ekki spilað fyrr en fyrir jóla en leik þeirra milli jóla og nýárs var frestað. Vísir/Bára

Tveimur leikjum í Subway deild karla í körfubolta og einum leik í Subway deild kvenna hefur nú verið frestað í viðbót við þá leiki sem var frestað milli jóla og nýárs.

Mótanefnd KKÍ hefur frestað tveimur leikjum í Subway deild karla sem voru á dagskrá næsta fimmtudag. Annars vegar er þetta leikur Vals og Tindastóls og hins vegar leikur ÍR og Stjörnunnar. Þetta er til komið vegna kórónuveirusmita í leikmannahópum Tindastóls og ÍR.

Leikjunum hefur ekki enn verið fundinn nýr leiktími. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Körfuboltasambandi Íslands.

Mótanefnd KKÍ hefur líka frestað einum leik í Subway deild kvenna sem var á dagskrá næsta miðvikudag, Haukar-Njarðvík. Þetta er til komið vegna COVID smita í leikmannahópum Njarðvíkur.

Frestaðir leikir sem á eftir að finna nýjan leiktíma í Subway deild karla eru nú orðnir fjórir talsins en búið að er að finna nýjan leiktíma fyrir leik Þórs Akureyri og Tindastóls. Smitið nú gæti reyndar haft áhrif á það.

Bæði lið Vals og ÍR eiga nú tvo leiki sem hefur verið frestað vegna kórónuveirusmita.

Þrír leikir í Subway-deild kvenna eru ekki komnir með nýjan leiktíma eftir frestanir vegna veirunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×