Í tilkynningu frá lögreglunni segir að ástæða virkjunar kerfisins sé að eldgos geti hafist með litlum fyrirvara.
Komi til eldgoss verður textaskilaboðum breytt í beina aðvörun til þeirra sem eru á umræddu svæði.
Þá segir að ekki sé hægt að útiloka að skilaboð bersit til fólks utan við skilgreint svæði og almenningur er beðinn um að hafa það í huga. Fréttastofu hafa borist ábendingar um að íbúar á Hellu fái skilaboð um að þeir séu nálægt virku eldstöðinni Heklu. Rétt er að árétta að ekkert óvissustig er í gildi vegna Heklu.
Tómas Gíslason, aðstoðarframkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, segir að um sé að ræða stríðni tækninnar þegar skilaboð berast á fólk sem er alls ekki nálægt Fagradalsfjalli. Ástæðan er sú að símar fólks virðast vera tengdir við farsímasenda löngu eftir að þeir yfirgáfu svæðið.
Neyðarlínan, sem sér um smáskilaboðasendingar sem þessar, hafi kosið að hafa vaðið fyrir neðan sig og senda frekar skilaboð á fleiri en færri. „Við teljum okkur með þessu vera að ávarpa fleiri af þeim sem gætu hugsanlega verið í hættu. Og lítum á það sem minniháttar tjón þó við truflum einn og einn,“ segir Tómas.
Að lokum varar lögreglustjórinn á Suðurnesjum fólk við því að fara í göngu um gosstöðvarnar á meðan óvissa ríkir.