Tottenham Hotspur vann þægilegan 3-0 sigur á Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í dag. Þá vann Southampton 3-2 útisigur á West Ham United.
Lucas Moura var allt í öllu í sóknarleik Tottenham í dag. Eftir tæplega hálftíma leik lagði hann boltann á Harry Kane sem kom lærisveinum Antonio Conte yfir. Var þetta níunda mark Kane á „Boxing Day“ eða annan í jólum eins og við köllum daginn einfaldlega.
Enginn leikmaður í sögu ensku úrvalsdeildarinnar hefur skorað oftar á öðrum degi jóla.
9 - With his opener against Crystal Palace, no player has now scored more @premierleague goals on Boxing Day than Harry Kane (9, level with Robbie Fowler). Punch. pic.twitter.com/iNlg21ypDB
— OptaJoe (@OptaJoe) December 26, 2021
Aðeins tveimur mínútum eftir að Kane kom Tottenham yfir þá tvöfaldaði Moura sjálfur forystuna. Gestirnir fóru svo úr öskunni í eldinn aðeins þremur mínútum síðar þegar Wilfried Zaha fékk sitt annað gula spjald í leiknum og þar með rautt.
Gestirnir voru því manni færri og tveimur mörkum undir er flautað var til hálfleiks. Síðari hálfleikur var heldur rólegri en Heung-Min Son gerði endanlega út um leikinn þegar stundarfjórðungur var til leiksloka. Staðan orðin 3-0 og reyndust það lokatölur.
Þá vann Southampton góðan 3-2 útisigur á West Ham United. Mohamed Elyounoussi kom gestunum yfir með eina marki fyrri hálfleiks. Michail Antonio jafnaði metin snemma í fyrri hálfleik en James Ward-Prowse kom Southampton yfir á nýjan leik með marki úr vítaspyrnu þegar rúm klukkustund var liðin.
10 + 10 - James Ward-Prowse (10 penalties, 11 direct free-kicks) is only the fourth player to score 10 or more @premierleague goals via both penalties and direct free-kicks, after Thierry Henry, Cristiano Ronaldo and Ian Harte. Specialist. pic.twitter.com/AKgGk5jL2V
— OptaJoe (@OptaJoe) December 26, 2021
Said Benrahma jafnaði metin fyrir West Ham skömmu síðar en Jan Bednarek reyndist hetja gestanna er hann stangaði aukaspyrnu Ward-Prowse í netið þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka.
Lokatölur í Lundúnum 3-2 gestunum í vil og Southampton nú komið upp í 14. sæti með 20 stig. West Ham er í 6. sæti með 28 stig en Tottenham er sæti ofar með 29 stig.