Sara tjáði sig um fyrsta daginn á CrossFit mótinu í Dúbaí og fékk líka mikið hrós frá umboðsmanni sínum Snorra Barón Jónssyni.
„Verð ég virkilega að hlaupa upp og niður skíðabrekkuna?,“ er spurning sem Sara slær upp í uppgjörsfærslu sinni á fyrsta keppnisdeginum.
Það er ekki að ástæðulausu að íþróttakona í hennar sporum myndi spyrja af þessu. Það að hlaupa á hálum snjónum og ofan á það í brekku er ekki besta byrjunin fyrir íþróttamann að koma til baka eftir krossbandsslit.
„Hverjar eru líkurnar að ég sé að keppa í fyrsta sinn eftir krossbandsslit og í fyrstu tveimur greinunum þurfi ég að hlaupa upp og niður skíðabrekku. Í Dúbaí af öllum stöðum,“ skrifaði Sara.
„Ég var ánægð með að horfast í augu við óttann og sanna það að ég treyst líkamanum mínum og að líkaminn minn geti treyst mér. Get ekki beðið eftir því að keppa á Dúbaí tennisvellinum á morgun (í dag) og taka á því með öllum þessum stórkostlegu íþróttkonum,“ skrifaði Sara.
Annar dagurinn á Dubai CrossFit Championship er framundan og situr Sara í ellefta sætinu eftir fyrsta daginn þar sem báðar greinarnar fóru fram í skíðahöllinni í Dúbaí.
„Hún er komin aftur og ég á erfitt með að finna orðin til að lýsa því hversu ánægður ég er,“ skrifaði Snorri Barón og deildi fyrrnefndri færslu Söru.
„Fyrsti dagurinn á Dubai CrossFit Championship var alvöru próf fyrir einhvern sem fór í hnéaðgerð fyrir átta mánuðum en Sara Sigmundsdóttir náði prófinu með glæsibrag,“ skrifaði Snorri.
„Það var það sem ég óskaði að hún færi í gegnum þetta heil og næði að sýna að líkaminn hennar væri í klár í keppni fyrir 2022 tímabilið. Allt í góðu til þessa og ég er mjög spenntur fyrir næstu tveimur dögum,“ skrifaði Snorri.
Keppnin hefst í hádeginum í dag að íslenskum tíma eða klukkan fjögur eftir hádegi af staðartíma.