Dele Alli fékk fá tækifæri er Mourinho þjálfaði Tottenham en fór í gegnum hálfgerða endurnýjun lífdaga þegar Nuno Espirito Santo tók við stjórn liðsins í sumar. Nuno entist hins vegar ekki lengi í starfi og Conte virðist ekki hafa hlutverk fyrir Dele inn á vellinum.
Daniel Levy, formaður félagsins, leyfði Dele ekki að fara til París Saint-Germain í október 2020 né janúar á þessu ári en virðist nú hafa skipt um skoðun. Talið er nær öruggt að Dele fari í janúar, þá líklegast á láni með möguleika á sölu næsta sumar. Frá þessu er greint á vef The Athletic.
Dele Alli er samningsbundinn til 2024 og sem stendur er ekki talið að mörg félög séu tilbúin að borga uppsett verð. Sérstaklega í ljósi þess að leikmaðurinn er í engu hlutverki hjá félaginu.
Síðan Conte tók við hefur hann tekið þátt í einum leik í ensku úrvalsdeildinni og eini leikurinn sem hann hefur byrjað var í neyðarlegu tapi gegn Mura í Sambandsdeild Evrópu.
Það má reikna með að fjöldi liða séu tilbúin að fá Dele Alli á láni í janúar og sjá hvort gæðin sem hann sýndi undir stjórn Mauricio Pochettino séu enn til staðar.