Í tilkynningu sem Ölgerðin hefur birt á heimasíðu sinni og Facebook segir að margt sé öðruvísi í ár; ekkert Hvítöl á markaðnum og þá sé eingöngu hægt að fá Jólaöl og appelsín í sykurskertri útgáfu.
Vegna dósaskorts og takmarkaðrar afkastagetu verksmiðju Ölgerðarinnar sé ekki hægt að bregðast við óskum viðskiptavina um aukið vöruúrval þessi jól en það verði hins vegar gert á næsta ári.
„Okkur hjá Ölgerðinni þykir alltaf jafn leitt þegar fólk saknar einhvers og við áttum okkur á að fólk vill líka sitt hefðbundna Jólaöl og líka sitt Hvítöl,“ segir í tilkynningunni. „Þess vegna getum við lofað ykkur eftirfarandi: Ný og stærri verksmiðja sem Ölgerðin vinnur nú að því að reisa á lóð fyrirtækisins mun hringja inn hátíðirnar á næsta ári.
Fyrir næstu jól mun Ölgerðin á ný bjóða upp á hefðbundið Egils Jólaöl og appelsín – og við gerum gott betur – því við ætlum að bjóða aftur upp á Hvítölið vinsæla. Það verða því svo sannarlega hefðbundin jól næst – og Ölgerðin hlakkar til að fylgja ykkur inn í þau, rétt eins og alltaf.“
Umræða um söknuð eftir Hvítölinu hefur meðal annars átt sér stað í Facebook-hópnum Matartips. Þar segir einn: „Man eftir því að hafa staðið í biðröð eftir Hvítöli við verksmiðju Egils Skalla á Rauðarárstíg fyrir 45 árum síðan og ég vil fá Jólaöl aftur, ekki eitthvað blandað sull.“
Og annar: „Er búinn að drekka hvítöl síðustu 38 ár, stóð meira að segja í röð á Rauðarárstíg til að fá hvítöl fyrir jólin. Þetta má ekki vanta um jólin. Ég er hættur að kaupa Egilsvörur útaf þessu. Þannig að gróðinn verður ekki það mikill.“
Í frétt RÚV frá því í fyrra var haft eftir Gunnari B. Sigurgeirssyni, aðstoðarforstjóra Ölgerðarinnar, að ákveðið hefði verið að hætta framleiðslu Hvítöls vegna minnkandi eftirspurnar. Samkvæmt söluspám væri ljóst að hún svaraði ekki kostnaði.