The Athletic greinir frá þessu og segist hafa heimildir fyrir því að Grétar og yfirnjósnarinn Dan Purdy hafi ákveðið að hætta eftir að Hollendingurinn Marcel Brands, sem var yfirmaður knattspyrnumála, hætti í síðustu viku.
Það var Brands sem réði Grétar til starfa á sínum tíma, fyrst sem yfirnjósnara vegna evrópskra leikmanna. Í fyrra var hann hækkaður í tign og hefur stýrt leikmannakaupum og þróun leikmanna félagsins (e. Head of recruitment and development).
Brands og Grétar þekktust frá því að Brands var yfirmaður knattspyrnumála hjá AZ Alkmaar í Hollandi, þegar Grétar var leikmaður liðsins.
Rafa Benítez var ráðinn knattspyrnustjóri Everton í sumar og hefur verið talinn valtur í sessi eftir að liðið lék átta leiki í röð án sigurs í ensku úrvalsdeildinni, og fékk úr þeim aðeins tvö stig. Liðið vann hins vegar góðan 2-1 sigur gegn Arsenal síðastliðinn mánudag og er í 12. sæti.
Grétar, sem er 39 ára gamall, lagði knattspyrnuskóna á hilluna vegna meiðsla árið 2013. Hann lék 46 A-landsleiki og sem atvinnumaður í Sviss, Hollandi, Englandi og Tyrklandi. Eftir að ferlinum lauk starfaði Grétar um skamman tíma fyrir AZ Alkmaar áður en hann var ráðinn yfirmaður knattspyrnumála hjá C-deildarliði Fleetwood Town í Englandi. Þaðan fór hann svo til Everton í desember 2018.